Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
19.12.2008 | 10:29
Að forðast annað kjaftshögg
Fyrir tilstilli löggilts endurskoðenda er loksins að koma í ljós hvaða aðferðum var beitt þegar útrásarvíkingarnir tæmdu bankakerfið. Eftir er að finna út hvers vegna þessir menn steyptu sínum eigin bönkum í glötun í stað þess að reyna að reka þá eins og menn. Aðalsteinn Hákonarson á heiður skilið fyrir þessar upplýsingar.
Hvað er svo til ráða í stöðunni svo leikurinn endurtaki sig ekki, ef bankar verða einkavæddir á ný ? Ljóst er að "hin ósýnilega hönd markaðarins", sem nú er búinn að gefa landsmönnum dúndrandi kjaftshögg sem telja verður tæknilegt rothögg. Hún má ekki hafa sama svigrúm í framtíðinni.
Neyðarlögin voru sterk aðgerð sem björguðu miklu, stjórnvöld brugðust hart við þá, en var það nóg ? Nei, frekari ráðstafanir eru nauðsynlegar, t.d. þetta:
- Setja verður ný lög um ríkisábyrgð á sparifé. Neyðarlögin eru sterkt fordæmi um að ríkið gengur feti framar í ábyrgð á sparireikningum landsmanna en verið hefur. Eins gott að festa það í lögum.
- Skilja verður fjárfestingarbanka frá sparibönkum. Þetta er bein afleiðing af áðurnefndum lögum.
- Setja verður veðbandslög til að treysta veð fyrir bankalánum. Stór hluti af ógæfunni var heimild banka til að lána fé af sparireikningum út á meira og minna verðlaus hlutabréf, bréf sem voru skráð á 15 - 20 sinnum hærra verði í kauphöllinni en eðlilegt var. Þetta má hindra með því til dæmis að endurskilgreina fyrsta annan og þriðja veðrétt og banna að sparifé sé lánað nema út á fyrsta veðrétt.
Vel heppnuð endurskoðun á löggjöf um fjársýslu er forsenda þess að eðlileg fjármálastarfsemi geti þróast hér. Útrásarskeiðið, sem kalla má grúpp-kúpp-og-fúpp tímabilið, bauð ekki upp á eðlilega fjármálastarfsemi, það er ekki einu sinni hægt að segja að útrásargaurarnir hafi verið í Matador með gjaldeyri landsmanna. Í alvöru Matador hefðu þeir fyrir löngu verið búnir að draga spjaldið sem stendur á: Farðu beina leið í steininn.